4.5 C
Selfoss

Ný Oddabrú yfir Þverá

Vinsælast

Vegagerðin og Rangárþing undirrituðu í desember sl. samkomulag um vegtengingu frá Odda á Rangárvöllum yfir á Bakkabæjaveg með brúun Þverár. Samningurinn markar mikil tímamót fyrir Rangæinga en barist hefur verið fyrir þessari vegagerð í áratugi. Í fjárlögum sem samþykkt voru í desember 2015 var gert ráð fyrir að fjármunir til framkvæmdarinnar renni í gegnum Vegagerðina.

Þann 10. janúar sl. voru opnuð tilboð í framleiðslu og flutning á steyptum niðurrekstrarstaurum undir brúna. Tvö tilboð bárust í verkið, annað frá Mikael ehf., Hornarfirði upp á 9.108.000 kr. og hitt frá B.M. Vallá efhf. Reykjavík upp á 9.402.600. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 10. 360.800 kr.

Yfirlitsmynd af vegarstæði við Oddabrú.
Yfirlitsmynd af vegarstæði við Oddabrú.

Á heimasíðu Oddabrúar, oddabru.net, er fjallað um vegtenginguna á milli Rangárvalla og Bakkabæja í Vestur-Landeyjum. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
Rangæingum hefur lengi verið kappsmál að koma á vegtengingu innan Rangárvalla þannig að Bakkabæir sem tilheyra sveitarfélaginu Rangárþingi ytra, og þá um leið önnur byggð austan Þverár m.a. í Landeyjum, komist í beina vegtengingu með brú yfir Þverá hjá Odda. Gert er ráð fyrir þessum vegi í gildandi aðalskipulagi Rangárþings ytra.
Að koma þessari leið í gagnið er mikið öryggisatriði ef kemur til mikilla flóða vegna eldsumbrota í jöklum og rýma þarf skyndilega á þessu svæði en sú hætta er ávallt yfirvofandi eins og dæmin sanna. Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur talað mjög sterkt fyrir þessu sem og almannavarnir héraðsins. Mörg fleiri rök má færa fyrir slíkri vegtengingu en öryggisþátturinn er veigamesta atriðið.

Á síðunni segir að til þess að þetta geti orðið þurf að koma brú yfir Þverá en mjög einfalt sé að tengja veg við slíka brú þar sem um er að ræða afar heppilegt vegstæði og vegurinn stuttur. Með þessu tengjast Bakkabæir Rangárvöllum á eðlilegri hátt og í samræmi við það sem áður var, svæðið verður tengt sem heild og samgöngur mun betri innan héraðs. Þá má nefna að með þessu mun álag á Landeyjaveg dreifast verulega enda þá komið bundið slitlag nánast alla leið á Bakkabæi um Oddaveg en viðhald á Bakkabæjavegi hefur reynst þungt í gegnum árin og vegurinn oft slæmur yfirferðar.

Vegalengd frá væntanlegu brúarstæði að Hellu er 11,5 km og styttir þessi framkvæmd því leiðina um 15 km. Þess má geta að sama vegalengd er á Hvolsvöll frá fyrirhuguðu brúarstæði á Þverá hvort heldur sem ekið er um Landeyjaveg eða Oddaveg (13,5 km) nema hvað bundið slitlag er á 11,5 km um Oddaveg en einungis 4 km ef ekið er núverandi leið frá Bakkabæjum.

Þá má nefna að með þessu bættast við fjölbreyttari möguleikar fyrir ferðamenn, en gríðarlegur vöxtur er í ferðaþjónustu á þessu svæði, og brýnt að finna leiðir til að dreifa álagi á samgöngukerfi sem ferðamannastaði.

Nefna má að með þessari vegtengingu verður hinn sögufrægi Oddi aftur í alfaraleið líkt og á tímum Oddaverja. Þá skiptir einnig máli að Bakkabæir eru í Oddasókn og eiga því aftur greiða leið í sína sóknarkirkju og prestur til sóknarbarna sinna. Leiðin frá Odda að Bakkabæjum er 25 km í dag og um aðrar sóknir að fara, ef miðað er við miðbik Bakkabæja t.d. Þúfuveg, en verður þá 2 km við þessa breytingu.

Á síðunni kemur fram að dýrasti hluti þess að koma á þessari vegtengingu sé brú yfir Þverá hjá Odda og sjálfsagt meginskýring þess að ekki hefur verið ráðist í þessa framkvæmd fyrr. Nú hafa loks fengist fjármunir til verksins á fjárlögum auk þess sem sveitarfélagið

Rangárþing ytra mun leggja verkefninu lið til að það verði að veruleika. Vegaframkvæmdir þessar verða því unnar í samstarfi Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins Rangárþing ytra og er áætlaður framkvæmdatími árin 2016-2017.

Nýjar fréttir