-5.8 C
Selfoss

Sveitarstjórnir í Rangárþingi hafa áhyggjur af heilsugæslumálum

Vinsælast

Sveitarstjórnarfólk í Rangárþingi hefur áhyggjur af heilsugæslumálum í sveitarfélögunum eins og sjá má í nýlegum ályktunum þeirra. Fram hefur komið að Þórir Kolbeinsson læknir hefur sagt upp starfi sínu þar sem starfshlutfall hans er ekki nema 75%.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti eftirfarandi ályktun samhljóða á fundi sínum 12. janúar sl.
„Nú er ljóst að læknir með áratugareynslu og sérmenntun í heimilslækningum hefur sagt starfi sínu lausu við Heilsugæslu Rangárþings, en hann var í 75% starfshlutfalli sem ekki fékkst aukið. Það er áhyggjuefni þar sem erfitt gæti reynst að fá lækni til starfa í ekki hærra starfshlutfall, þar sem erfiðlega hefur gengið að manna stöður heimilislækna á landsbyggðinni eins og forstöðumenn HSU hafa m.a. upplýst um.
Öflug heilsugæsla er hornsteinn í hverju samfélagi og mikilvægt að henni sé sinnt eins og lög gera ráð fyrir, enda á heilsugæsla að vera fyrsti viðkomustaður einstaklinga innan heilbrigðiskerfisins. Sveitarstjórn Rangárþings eystra minnir einnig á ákvæði í sameiginlegri yfirlýsingu sveitarstjórna í Rangárþingi og forstjóra HSU frá 1. febrúar 2016 um mikilvægi samráðs og upplýsinga til sveitarstjórna á mönnun og þjónustu starfsstöðvanna og bætta kynningu á aðgengi íbúanna að þjónustunni.“

Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 11. janúar sl. var umræða um heilbrigðisþjónustu í Rangárþingi og ályktað um hana en ár er liðið frá sameiginlegri yfirlýsingu HSU með sveitarfélögunum í Rangárþingi um þau mál. Eftirfarandi var bókað í fundargerð:
„Umræða um hvað hafi áunnist í bættri heilbrigðisþjónustu í Rangárþingi nú þegar ár er liðið frá sameiginlegri yfirlýsingu með HSU um þau mál.
Þann 1. febrúar nk. er liðið ár frá því að yfirstjórn HSU gaf út sameiginlega yfirlýsingu með sveitarfélögunum vegna heilsugæslu í Rangárþingi. Í yfirlýsingunni koma fram ýmiss atriði sem lúta að fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustunnar í héraði og getið um fyrirhugaðar nýjungar í útfærslu og skipulagi til eflingar henni. Sveitarstjórn Rangárþings ytra telur mikilvægt að óska eftir sameiginlegum fundi með yfirstjórn HSU að nýju til að fara yfir hvað hefur áunnist á því ári sem nú er liðið.
Óskað hefur verið eftir fundi með yfirstjórn HSU um málið og er hann á dagskrá á næstu dögum.“

Nýjar fréttir