-1.1 C
Selfoss

Skrifað undir samning um smíði nýs Herjólfs

Vinsælast

Vegamálastjóri og fulltrúar pólsku skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. skrifuðu undir samning um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju þriðjudaginn 17. Janúar sl. Samkvæmt samningnum verður nýja ferjan afhent sumarið 2018. Samið var við pólsku skipasmíðastöðina Crist S.A. í Gdynia að loknu útboði sem Ríkiskaup önnuðust. Að teknu tilliti til allra þátta reyndist tilboð þeirra hagstæðast eftir að norsk skipasmíðastöð féll frá sínu tilboði. Nýja ferjan mun rista mun grynnra en gamli Herjólfur og þannig geta siglt mun oftar í Landeyjahöfn. Þetta kemur fram á heimasíðu Vegagerðarinnar. Þar segir ennfremur:
Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Vestmannaeyjabæjar, Ríkiskaupa og innanríkisráðuneytisins. Auk Hreins Haraldssonar vegamálastjóra og þeirra Romuald Teperski og Radoslaw Pallach frá Crist S.A. skrifuðu þau Sigurður Áss Grétarsson framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni, Hildur Sólveig Sigurðardóttir forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, Halldór Sigurðsson forstjóri Ríkiskaupa og Sigurbergur Björnsson skrifstofustjóri hjá innanríkisráðuneytinu undir samninginn fyrir hönd kaupenda.

Smíði lokið sumarið 2018
Skipasmíðastöðin mun nú þegar hefjast handa við smíðina sem ljúka á sumarið 2018, eða 20. júní samkvæmt samningnum, þannig að líklega mun gamli Herjólfur sigla í síðasta sinn með gesti á þjóðhátíð í Eyjum núna í sumar.
Hjá Crist S.A. starfa um 1500 manns og mun skipasmíðastöðin hafa smíðað fyrir íslensk fyrirtæki áður. Skipasmíðastöðin vinnur samkvæmt gæðakerfi.

Meginmarkmið bættar samgöngur
Meginmarkmið með nýrri Vestmannaeyjarferju er að bæta samgöngur milli Vestmannaeyja og Landeyjarhafnar, einkum við erfið vetrarskilyrði. Þær áskoranir sem við er að eiga eru grunnsævi, há tíðni af þungri úthafsöldu, hliðarstraumur og mikill vindur. Til að ráða við þessar aðstæður þarf ný ferja að vera eins grunnrist og mögulegt er, en jafnframt þarf að tryggja stjórnhæfni hennar við þessar aðstæður.

Öflugri ferja

Teikning af nýju ferjunni.
Teikning af nýju ferjunni.

Þegar ráðist var í þetta verkefni var ákveðið að markmiðið með hönnuninni yrði að ferjan ráði við dýpi á stórstraumsfjöru, 4,5 m (meðaldýpi 6,0 m) í innsiglingunni og 5,0 m (meðaldýpi 6,5 m) á rifi þar fyrir utan, 3,5 m háar úthafsöldur með sveiflutímann 5–12 sek., hliðarstraum allt að 3 m/s og 10 mínútna meðalvind að 22 m/s.
Nýja ferjan á að ráða við að halda uppi samgöngum við aðstæður við Landeyjahöfn, þó þannig að þegar öldurnar eru mjög langar, og 3,5 m eða hærri, getur skipið ekki siglt á háfjöru, þ.e.a.s. sæta þarf sjávarföllum

Aðrir eiginleikar nýjar Vestmannaeyjaferju:
Lengd x breidd x djúprista: 69,38 m x 15,1 m x 2,8 m.
Flutningsgeta: 329 m akreinar (73 fólksbílar) og 390 farþega + 150 tímabundið.
Siglingahraði: 15,5 hnútar
Afl: 3 x 1230 kW dísil knúnir rafalar, 2 x 1.700 kW „azipull“ skrúfur.
Tvinntækni: Skrúfurnar verða knúnar áfram af rafmótorum sem fá afl sitt frá rafölunum og rafgeymum eftir því sem hagkvæmast er hverju sinni.  Fyrirkomulagið sparar um 30% miðað við orkunotkun Herjólfs og býður upp á frekari olíusparnað í framtíðinni með því að stækka rafhlöður og að nýta  landrafmagn til hleðslu þeirra eftir því sem hagkvæmt kann að þykja í framtíðinni.

Fréttin birtist á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Nýjar fréttir