-3.1 C
Selfoss
Home Fastir liðir Sunnlenski matgæðingurinn Lauflétt uppskrift af steiktum þorski

Lauflétt uppskrift af steiktum þorski

Lauflétt uppskrift af steiktum þorski
Sævar Steingrímsson er sunnlenskur matgæðingur.

Sævar Steingrímsson er matgæðingur vikunnar.

Ég þakka stórvini mínum og veiðifélaga honum Gissuri fyrir að hugsa til mín þegar kemur að matgæðingum. Hann veit að ég hef mjög gaman af því að veiða, elda og borða allt sem gott þykir. Þar sem villibráð er búin að vera undanfarið í matgæðingnum ætla ég að lauma fram einni laufléttri uppskrift af steiktum þorski.

Ca. tvö flök fyrir fjóra
2 til 3 egg
Einn peli af rjóma
Hveiti
Ca. hálfur poki af þurrkuðum döðlum
Einn laukur
Knorr fiskikrydd, aromat og hvítur pipar
Slatti af sveppum og íslenskt smjör.

Ég byrja á því að steikja laukinn, sveppina og döðlurnar í smjöri við vægan hita þar til laukurinn er orðinn linur og mjúkur. Tek það svo frá og geymi það til síðar. Set svo smá smjörlíki á pönnuna og byrja að hita hana á lágum hita, á meðan pannan hitnar græja ég svo hveiti í skál, krydda það og spara ekki kryddið og hræri vel saman og píska svo saman eggin og bæti smá mjólk saman við eggin jafnvel smá fiskikryddi. Byrja svo að velta þorskstykkjunum upp úr hveitinu svo í eggin svo aftur í hveitið, þannig verður þykkt og gott lag af hveiti utan um stykkið. Set svo stykkin á pönnuna á roðið í ca. 3 mínutur, sný þeim svo á holdið í ca. 3 mín. eða þar til hveitið hefur brúnast fallega, sný þeim aftur á roðið og helli svo möndlumixinu út á pönnuna með fiskinum, læt það malla í 5 mínútur og helli síðan vel af rjóma út á pönnuna, set lokið á pönnuna læt það svo krauma í 10 mínútur eða þar til rjóminn þykknar.

Þá er rétturinn klár og er borinn fram með íslenskum kartöflum, hvítlauksbrauði og fersku salati að eigin vali.

Verði ykkur að góðu.

Ég skora á Ólaf Tage Bjarnason aflakló að koma með einhverjar ómótstæðilegar uppskriftir í næsta blað.