-0.5 C
Selfoss

Kammerkór Suðurlands á menningarhátíð í London

Vinsælast

Kammerkór Suðurlands tekur um þessar mundir þátt í menningarhátíðinni Nordic Matters ásamt fjölda listamanna frá Norðurlöndunum.

Norræn menning og listir verða í brennidepli hjá Southbank Centre í London allt árið 2017 með menningarhátíðinni Nordic Matters, sem hefst formlega í dag. Southbank Centre er stærsta menningarmiðstöð Bretlands og hún stendur við hinn líflega suððurbakka Thames árinnar í miðborg London og hana sækja um 5 milljónir gesta ár hvert. Boðið verður upp á fjölbreytta norræna menningardagskrá á sviðum byggingarlistar, bókmennta, tónlistar, dans, myndlistar, hönnunar, tísku og matvæla auk þess sem hægt verður að sækja fjölda fyrirlestra og málstofa.

Sérstök áhersla verður lögð á málefni barna og ungs fólks, jafnrétti kynjanna og sjálfbærni frá norrænu sjónarhorni og verða viðfangsefnin fléttuð inn í allar lista- og menningarhátíðir Southbank Centre á árinu. Má þar nefna barnahátíðina Imagine, Being a Man, Women of the World, kórahátíðina Chorus, London Literature Festival  og Norræna músíkdaga 2017.

Dagskráin verður í þróun allt árið en íslenskir þátttakendur eru rithöfundarnir Sjón og Þórarinn Eldjárn, Reykjavíkurdætur, Víkingur Ólafsson, Kammerkór Suðurlands, Birgitta Sif og Bjargey Ólafsdóttir. Íslenski dansflokkurinn mun flytja verkið Fórn eftir Ernu Ómarsdóttur, Ragnar Kjartansson, Gabríelu Friðriksdóttur, Matthew Barney og Valdimar Jóhannsson. Einnig verður flutt tónverk eftir Daníel Bjarnason og Önnu Þorvaldsdóttur tónskáld. Íslenski kórinn í London syngur við opnunarhátíðina í dag undir stjórn Helga Rafns Ingvarssonar.

Stjórnendur Southbank Centre kynntu dagskrá ársins að viðstöddum menningarmálaráðherrum Norðurlandanna og breskum starfssystkinum þeirra Karen Bradley og Matt Hancock. Karitas H. Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri menningarmála, sótti opnunina fyrir hönd Kristjáns Þórs Júlíussonar mennta- og menningarmálaráðherra og einnig voru viðstaddir sendiherra Íslands auk fulltrúa frá Íslandsstofu, Reykjavíkurborg, Kvikmyndamiðstöð Íslands, utanríkisráðuneytinu og sendiráði Íslands í London.

Nýjar fréttir