-4.4 C
Selfoss
Home Fréttir Lestur og leshringur í Bókasafninu

Lestur og leshringur í Bókasafninu

Lestur og leshringur í Bókasafninu

Nú er nýtt ár runnið upp og nýársheitin janfvel órofin ennþá. Búið að kaupa kort í ræktina og græja sig upp í sundlaugina. Því er ekki úr vegi að minna á að árskort í Bókasafninu kostar svipað og eitt glanstímarit en dugar til að lesa þau öll og mikið meira til.

Á Bókasafninu geturðu vafrað um öll svið menningarinnar og lesið þér til, eða lesið þér til skemmtunar. Um gamla guði og guðleysingja, ofurhetjur, andans tröll og undirmálsmenn. Hægt er að fletta ýmsu upp í bókum en líka er hægt að flytja inn í þær um stundarsakir. Taka sér frí frá hverdagsleikanum og fara til Narníu eða þangað sem saffran er eldað í Íran og flugdrekar fljúga í Afganistan. Það er hægt að kynnast fólki sem markaði spor í þjóðarsálina, Gísla frá Uppsölum, Nonna, Ellý, Hallgrími Péturssyni og Vigdísi Finnbogadóttur.

Svo er líka hægt að kíkja inn í kaffi og blaðalestur – spjalla við kunningja nú eða eiga rólega stund.

Leshringur safnsins byrjar fimmtudaginn 12. janúar kl. 17:15 í Lesstofunni. Þangað eru allir velkomnir endurgjaldslaust og engar kröfur gerðar til fólks aðrar en að þeim finnist gaman að lesa.

Sjáumst á bókasafninu.
Með kveðju, Heiðrún D. Eyvindardóttir,
forstöðumaður Bókasafns Árborgar