-4.4 C
Selfoss

Uppspunin frá rótum í leikhúsinu

Vinsælast

Leikfélag Selfoss situr sjaldan auðum höndum. Æfingar eru nú hafnar á aðalsýningu leikársins í Litla leikhúsinu við Sigtún og mikil gleði og kraftur ríkir í húsinu. Verkið heitir Uppspuni frá rótum og er eftir þá Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason.

Verkið er fjölskyldusaga þar sem saman eru komnir fjórir ættliðir og hefst þegar Sigurður gamli, sem var í senn eiginmaður, pabbi, afi og langafi annarra persóna verksins, er nýlátinn. Fjölskyldusagan er rakin í grófum dráttum í öfugri tímalínu og spannar mestalla 20. öldina. Þar skiptast á skin og skúrir í samskiptum ólíkra póla friðar, ófriðar, náttúrusinna og framkvæmdasinna, brottfluttra og aðfluttra auk ýmissa annarra litbrigða manneskjunnar. Verkið er bæði gaman og alvara með fjölda skemmtlegra laga sem einnig eru samin af áðurnefndu þríeyki. Það var fyrst sýnt á heimavelli þremenningana á Húsavík árið 2000 en er nú sett upp í annað sinn.

Leikstjóri sýningarinnar er Þórey Sigþórsdóttir leikkona og leikstjóri. Alls eru 15 leikarar í sýningunni, hæfileg blanda af reyndum kempum sem og rísandi stjörnur framtíðarinnar. Auk þess er fjöldi fólks sem vinnur hin fjölmörgu en gríðarlega mikilvægu handtök baksviðs. En betur má ef duga skal og vill leikfélagið endilega fá fleira fólk til liðs við sig til að vinna að sýningunni, hvort sem er að skrúfa, mála, hvísla, greiða eða vinna leikmuni. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að taka þátt þessu skemmtilega starfi að leita okkur uppi á fésbókinni til að bjóða fram krafta sína.

Frumsýning er áætluð 24. febrúar og bíður leikfélagið spennt að sýna Sunnlendingum og landsmönnum öllum þessa skemmtilegu sýningu. Það er ekkert víst að þetta klikki. Einnig viljum við tilkynna að til stendur að stíga eitt stutt skref fyrir þumalinn, en risaskref fyrir leikfélagið fljótlega þegar snapchatreikningur í nafni leikfélagsins verður stofnaður þar sem hæg verður að fylgjast með skemmtilegum innskotum úr starfi félagsins.

Nýjar fréttir