-4.4 C
Selfoss

Framhaldsskólinn í Austur–Skaftafellssýslu hlaut Menntaverðlaun Suðurlands

Vinsælast

Menntaverðlaun Suðurlands 2016 voru afhent í gær í níunda sinn á hátíðarfundi í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, veitti verðlaunin.

Alls bárust tilnefningar um tíu verkefni og voru þau mjög fjölbreytt. Úthlutunarnefnd á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fjallaði um umsóknirnar. Verðlaunin hlaut Framhaldsskólinn í Austur–Skaftafellssýslu.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veita árlega verðlaun fyrir framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi sem um leið er hvatning til frekari dáða.

Framhaldsskólinn í Austur–Skaftafellssýslu hefur unnið markvisst að náttúrufarsrannsóknum með nemendum sínum allt frá árinu 1990. Nemendur skólans kynnast náttúrurannsóknum með vettvangsferðum, mælingum og rannsóknarúrvinnslu. Rannsóknirnar snúa að jökulsporðum, framvindu gróðurs á Skeiðarársandi, viðgangi álftastofns í Lóni og fuglum í fólkvanginum Óslandi á Höfn.
Skólinn er í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrustofu Suðausturlands og nemendur öðlast þannig mikilvæga þekkingu á náttúrunni og fá leiðsögn í vísindalegri úrvinnslu sem nýtist áfram í lífinu og frekari námi.
Það er mat úthlutunarnefndar að náttúrurannsóknir skólans eru einstakar á margan hátt og eiga ekki sinn líka á framhaldsskólastigi. Þær eru einstakt framlag til rannsóknarvinnu og kennslu á náttúrunni í nærsamfélagi skólans sem nýtist m.a. nemendum, fræðasamfélaginu og sögu lands og náttúru á Íslandi.

Aðrir sem hlutu tilnefningu:
Leikskólinn Leikholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrir metnaðarfullt og gott starf í leikskólanum, m.a. á sviði umhverfismála. Þá er gott samstarf á milli skóla og foreldra.
Jökulmælingar á Sólheimajökli í Hvolsskóla fyrir merkilegt verkefni um jökulmælingar sem hefur verið unnið að í 6 ár. Kennsla fer fram á mælingatæki og unnið er að úrvinnslu.
Foreldrafélag leikskólans Undralands á Flúðum fyrir öflugt foreldrasamstarf sem og góðan stuðning foreldra við leikskólann á margan hátt.
ART verkefnið á Suðurlandi fyrir að skila börnum og unglingum betri sjálfsmynd, auknu sjálfsöryggi, betri líðan og aukinni færni í félagslegum samskiptum.
Dagur íslenskrar tungu í Hvolsskóla fyrir metnaðarfulla hátíðardagskrá í tilefni af Degi íslenskrar tungu sem hefur verið haldin undanfarin 12 ár með opnu húsi og heiðursgesti.
Kristín Gísladóttir kennari við Þjórsárskóla fyrir að vera m.a. öflugur og framsækinn kennari sem er óhrædd við að fara óhefðbundnar leiðir í kennslu.
Samborg, samtök foreldrafélaga í leik- og grunnskólum Árborgar fyrir að efla samstarf foreldrafélaga í skólum sveitarfélagsins í Árborg, m.a. með foreldrafræðslu og að beita sér í málefnum er varða börn og skólastarf í sveitarfélaginu.
Hvolsskóli fyrir nám í hestamennsku í landbúnaðarhéraði – Knapamerki 1 og 2 en Knapamerkin eru valáfangar fyrir nemendur skólans á elsta stigi.
Edda Guðlaug Antonsdóttir, forstöðumaður skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, fyrir áratuga starf við menntamál og frumkvöðlastarf við stofnun sérfræðiþjónustu fyrir leik- og grunnskóla á svæði skólaþjónustunnar.

Nýjar fréttir