Hrönn Guðmundsdóttir mun taka við starfi framkvæmdastjóra Hekluskóga af Hreini Óskarssyni sem nú gegnir starfi sviðstjóra samhæfingarsviðs Skógræktarinnar. Þetta kom fram á fundi framkvæmdaráðs Skógræktarinnar á föstudag.
Á fundinum var rætt um vinnu við fjárhagsáætlanagerð hjá Skógræktinni, vinnu að landsáætlun í skógrækt sem er að hefjast og fleiri mál. Starfsmannafundur alls starfsfólks Skógræktarinnar verður haldinn á Akureyri í apríl.
Starfshlutfall Hrannar hjá Hekluskógum verður 30% en hún starfar áfram sem framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda í 70% stöðu. Á fundinum á föstudag ræddi framkvæmdaráðið líka mögulega skógrækt á uppgræddum svæðum í Þingeyjarsýslum sem Landgræðslan vill efna til samstarfs við Skógræktina um og sömuleiðis um Þorláksskóga á Hafnarsandi í Ölfusi sem eru í undirbúningi. Fundir eru ráðgerðir á næstunni um bæði þessi efni með Landgræðslunni og fleirum.
Fjárhagsáætlanagerð var fyrirferðarmikil á fundinum enda er nú hafið fyrsta heila starfsár Skógræktarinnar. Um áramótin lauk síðasta fjárhagsári stofnananna sem sameinuðust 1. júlí 2016 en nú skiptist áætlunin eftir hinum fjórum sviðum Skógræktarinnar, rekstrarsviði, rannsóknasviði, samhæfingarsviði og skógarauðlindasviði. Skógræktarráðgjafar sem sinna þjónustu og samskiptum við skógarbændur gera nú áætlanir fyrir landshlutana og verður einna mest breyting í þessum efnum hjá þeim af starsfólki Skógræktarinnar.
Vinna er að hefjast við landsáætlun í skógrækt og er áhugi fyrir því að efna til norræns samstarfs í tengslum við það. Þá ræddi framkvæmdaráðið um fræmál Skógræktarinnar sem fundað verður um á næstunni, áframhaldandi andlitslyftingu stofnunarinnar með endurbótum á húsum, merkingum o.fl. Stefnt er að því að halda starfsmannafund allra starfsmanna Skógræktarinnar seinni hluta aprílmánaðar. Fundurinn verður á Akureyri