-5.5 C
Selfoss

Hrönn tekur við Hekluskógum

Vinsælast

Hrönn Guðmundsdóttir mun taka við starfi framkvæmdastjóra Hekluskóga af Hreini Óskarssyni sem nú gegnir starfi sviðstjóra samhæfingarsviðs Skógræktar­innar. Þetta kom fram á fundi framkvæmdaráðs Skóg­ræktarinnar á föstudag.

Á fundinum var rætt um vinnu við fjárhagsáætlanagerð hjá Skóg­rækt­inni, vinnu að landsáætlun í skógrækt sem er að hefjast og fleiri mál. Starfsmanna­fundur alls starfsfólks Skóg­ræktarinnar verður haldinn á Akureyri í apríl.

Starfshlutfall Hrannar hjá Hekluskógum verður 30% en hún starfar áfram sem framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda í 70% stöðu. Á fund­inum á föstudag ræddi framkvæmdaráðið líka mögu­lega skógrækt á uppgræddum svæðum í Þingeyjar­sýslum sem Land­græðslan vill efna til samstarfs við Skóg­ræktina um og sömuleiðis um Þorláksskóga á Hafnarsandi í Ölfusi sem eru í undirbúningi. Fundir eru ráðgerðir á næstunni um bæði þessi efni með Land­græðslunni og fleirum.

Fjárhagsáætlanagerð var fyrirferðarmikil á fundinum enda er nú hafið fyrsta heila starfsár Skógræktarinnar. Um ára­mótin lauk síðasta fjárhagsári stofnananna sem sameinuðust 1. júlí 2016 en nú skiptist áætlunin eftir hin­um fjórum sviðum Skógræktarinnar, rekstrarsviði, rannsóknasviði, samhæfingarsviði og skógarauðlinda­sviði. Skógræktar­ráð­gjaf­ar sem sinna þjónustu og samskiptum við skógarbændur gera nú áætlanir fyrir lands­hlut­ana og verður einna mest breyting í þessum efnum hjá þeim af starsfólki Skógræktarinnar.

Vinna er að hefjast við landsáætlun í skógrækt og er áhugi fyrir því að efna til norræns samstarfs í tengslum við það. Þá ræddi framkvæmdaráðið um fræmál Skógræktarinnar sem fundað verður um á næstunni, áfram­hald­andi andlits­lyft­ingu stofnunarinnar með endurbótum á húsum, merkingum o.fl. Stefnt er að því að halda starfs­mannafund allra starfs­­manna Skógræktarinnar seinni hluta aprílmánaðar. Fundurinn verður á Akureyri

Nýjar fréttir