3.9 C
Selfoss

Höfðingleg gjöf til Landgræðslunnar

Vinsælast

Á liðnu ári lést Ragnar Haraldsson, sjómaður. Í erfðaskrá sinni ánafnaði hann Landgræðslu ríkisins umtalsverðri fjárhæð eða um 15 milljónum króna.

Ragnar útskrifaðist frá Bændaskólanum á Hvanneyri en var sjómaður lengst af og starfaði hjá Eimskipafélaginu til sjötugs. Ragnar var einhleypur og barnlaus. Fram kom í útfararræðu að Ragnar hafi verið hörkuduglegur sjómaður, sterkur og ósérhlífinn. Undir lok ævi sinnar bjó hann á Hrafnistu í Reykjavík.

Ragnar Haraldsson fæddist og ólst upp á Þorvaldsstöðum í Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu árið 1926. Hann var sonur hjónanna Haraldar Guðmundssonar og Þórunnar Bjargar Þórarinsdóttur. Ragnar var sjöundi af fjórtán börnum.

Í erfðaskrá kemur fram að Ragnar skipti eigum sínum jafnt á milli á milli Slysavarnarskóla sjómanna, Barnaspítalasjóðs Hringsins og Landgræðslu ríkisins. Greinilega vakti fyrir honum öryggi sjómanna, velferð barna og lands.

„Ég vil fyrir hönd Landgræðslu ríkisins þakka þann góða hug sem fylgdi gjöfinni til stofnunarinnar. Verkefni Landgræðslunnar eru mörg og mikilvæg og við munum nota þennan arf í verk sem sannarlega skila sér til komandi kynslóða. Ljóst er að það var vilji Ragnars,“ sagði Árni Bragason landgræðslustjóri, þegar gjöfin var afhent, laust fyrir áramót.

Nýjar fréttir