-5 C
Selfoss
Home Fréttir Fólkið sem leitað var að við Langjökul fundið

Fólkið sem leitað var að við Langjökul fundið

Fólkið sem leitað var að við Langjökul fundið

Björgunarsveitafólk af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu var í gær kallað út til leitar að tveimur einstaklingum á vélsleða á Langjökli. Fólkið var í skipulagðri vélsleðaferð frá Skálpanesi en varð viðskila við hópinn og skilaði sér ekki af jöklinum.

Parið fannst upp úr klukkan hálf níu í gærkvöldi við sunnanverðan Langjökul. Þau voru bæði heil á húfi en orðin köld þegar björgunarsveitafólk fann þau skammt frá Skálpanesi. Þau voru flutt inn í hlýjan björgunarsveitabíl þar sem heitir drykkir biðu þeirra.

Fólkið var í skipulagðri vélsleðaferð sem lagði upp frá skála við Geldingafell þaðan að jökulsporðinum norðan Skálpaness. Þar var snúið við en á bakaleiðinni skall á vonskuveður og fólkið varð viðskila við hópinn en hélt kyrru fyrir eftir að þau áttuðu sig á því að þau væru villt.

Alls tóku um 180 manns þátt aðgerðinni, frá björgunarsveitum á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi.

Vegna atviksins við Langjökul sendi Mountaineers of Iceland frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Mountaineers of Iceland vill færa öllu því björgunarsveitafólki sem tók þátt í leit og björgun fólksins, sem varð viðskila við hóp á vegum fyrirtækisins í vélsleðaferð við Langjökul í dag, hugheilar þakkir.

Vegna atviksins í dag skal taka fram að leiðsögumenn Mountaineers of Iceland þekkja svæðið sem hópurinn fór um mjög vel, en þeir hafa samanlagt áratugareynslu í ferðum á svæðinu. Eins og fram hefur komið hafði verið gefin út stormviðvörun en vegna hagstæðrar vindáttar á svæðinu var ákveðið að fara af stað upp að jöklinum eftir að leiðsögumenn fóru á undan hópnum til að kanna aðstæður sem að þeirra mati reyndust ágætar. Vegna fyrri reynslu leiðsögumanna, góðrar þekkingar á svæðinu og hagstæðrar vindáttar var ákveðið að halda af stað.“