-10.3 C
Selfoss
Home Fastir liðir Sunnlenski matgæðingurinn Hörkuuppskrift af lúðu

Hörkuuppskrift af lúðu

Hörkuuppskrift af lúðu
Pétur Viðar Kristjánsson er sunnlenskur matgæðingur.

Ég þakka Bjarka Gylfasyni, þeim mikla veiðimanni, fyrir áskorunina. Við höfum skotið ófáa villibráðina saman og eldað og etið, en þar sem flestir hafa væntanlega borðað yfir sig af kjöti um hátíðarnar þá ætla ég að henda inn hörkuuppskrift af lúðu sem ég elda mjög oft.

800 gr fersk lúða
1 dós gular baunir, vatninu hellt af
500 ml rjómi
1 hvítlauksgeiri, skorinn fínt
2 skarlottulaukar, skornir fínt
Kjúklingakraftur fljótandi
Salt
Pipar

Byrjað er að skera lúðuna í hæfilegar sneiðar ca. 100 gr. hver og þerra vel fyrir eldun og geyma. Þar næst er smjör brætt á pönnu á miðlungshita og laukurinn, hvítlaukurinn og gulu baunirnar sett út á. Þessu er leyft að svitna í ca. 4-5 mín. áður en rjómanum er bætt út á. Þetta má svo malla á lágum til miðlungshita í 10-12 mínútur áður en þessu er öllu hellt í blandara eða matvinnsluvél og maukað vel. Fínt er að smakka til með salti, pipar og kjúklingakrafti meðan þetta er í blandaranum. Ef menn vilja vera fínir á því má renna þessu öllu í gegnum fínt sigti til að fá betri áferð. Einnig ef sósan er of þunn þá má þeyta eina eggjarauðu yfir vatnsbaði og hræra sósuna saman við rauðuna. Þar næst eru lúðusteikurnar steiktar á háum hita upp úr smjöri í 1-2 mínútur á hvorri hlið (fer eftir þykkt), lúðan er svo sett á disk og sósunni hellt yfir og borið fram með kirsuberjatómötum og fersku salati.

Ég vil næst skora á Gissur Kolbeinsson snilling í eldhúsinu að hrista fram úr erminni einhverja hetjuuppskrift.