-9.7 C
Selfoss

Vetrarkragi

0
Vetrarkragi

Hér er upp­skrift af fyrir­ferðar­lítilli vetrarflík sem heldur hita á hálsi og herðum. Kraginn getur hentað báðum kynjum en á herra mætti etv. hafa neðri hlutann aðeins styttri.
Við notuðum tvær gerðir af garni saman, Alma frá Permin og Hot Socks Pearl frá Gründl. Alma er blanda af Alpaca og acryl og er með óvenjulega loðna og mjúka áferð. Pearl er einstaklega mjúkt sokkagarn enda blandað kasmír ull. Í þennan kraga fara 2 dokkur af hvoru garni og notaðir eru hringprjónar no 4.5, einn 40 sm og hinn 60 sm. Hnappurinn er frá ROÐ og er gerður úr laxaroði. Kraginn er fyrst prjónaður fram og til baka svo úr verði klauf sem hægt er að loka með hneppingu.

Leiðbeiningar fyrir útaukningu:
1.   Þegar 2 l eru eftir af sl l er búin til ný lykkja með því að taka lykkjuna fyrir neðan næstu l og prjóna hana snúna.
2.  Þegar búið er að prjóna 2 sl er búin til ný lykkja með því að taka lykkjuna fyrir neðan næstu l og prjóna hana snúna.

Fitjið upp 120 l á lengri hringprjóninn og prjónið 3 l sl og 3 l brugnar fram og til baka. Fyrsta l er alltaf tekin óprj fram af prj þannig að hún snúi fram, þ.e. ekki komi hnútur á snúninginn.

Þegar búið er að prj 3 sm er gert hnappagat þannig: Þegar 6 l eru eftir af umf eru 2 l prjónaðar saman, 2 l búnar til upp á prjóninn, 1 l tekin óprjónuð, næsta prj og þeirri óprj steypt yfir. Prjónið áfram þar til klauf þykir hæfilega löng og gerið hnappagöt með 4 sm millibili, mest þrjú. Prjónið 3 sm eftir síðasta hnappagatið (á prufukraganum var aðeins gert eitt hnappagat og klaufin er því mjög stutt). Prjónið síðustu umferðina með styttri hringprjóninum. Þegar 8 l eru eftir út á enda er næsta l prjónuð með 1. lykkjunni af hinum enda hringprjónsins og þannig koll af kolli.  Prjónið áfram í hring þar til kraginn mælist 17 sm. Gott er að setja áberandi prjónamerki hér við upphaf umferðarinnar.

Áfram er prjónað til skiptis slétt og brugðið en hér eftir er aukið út í slétta prjóninu í 5. hverri umf, fyrst eftir fyrri leiðbeiningunum, næst eftir seinni leiðbeiningunum og síðan til skiptis alls 9 sinnum. Þá eru lykkjurnar í slétta hlutanum orðnar 12. Prjónið 5 umf eftir síðustu aukninguna.

Fellið laust af. Góð aðferð er að prjóna eins og verið sé að hekla fastalykkjur, þ.e. *prj 1 l (sl í sl og br í br) og prj síðan í gegnum hana og næstu l á undan* og þannig koll af kolli allan hringinn. Slítið frá, dragið endann í gegnum síðustu lykkjuna og notið nál til að tengja hana við fyrstu lykkjuna þannig að samskeytin verði ósýnileg. Gangið frá endum og festið fallegar tölur. Þvoið stykkið í volgu sápuvatni og leggið til þerris. – Nú má veturinn koma ekki satt?

Hönnun: Alda Sigurðardóttir